mánudagur, september 29, 2008

Eins og ávallt er fáránlega mikið að gera hjá okkur íslensku kindunum hérna á Svalbarða. Við Minney æfum stíft touch rugby og munum við halda áfram þegar heim verður komið og því vantar okkur nokkra liðsmenn! Við höfum einnig verið duglegar að æfa klifrið og svo er nýjasta æðið Kayak polo sem er frekar skrítin íþrótt þar sem maður leikur sér með bolta í sundlaug en maður situr í litlum kayak á meðan.

Tinna vinkona Minneyjar og Halli kærasti Marínar komu í heimsókn á miðvikudaginn og eru þau að fara heim í dag. Við Minney vorum ansi duglegar að þræla greyið Tinnu út svo hún fengi sem mest út úr þessari ferð, hún ætti allavegana að sofa vel á flugvellinum í nótt eftir okkur þrælahaldarana á Svalbarða.

Við byrjuðum á að fara með þau uppá skotæfingasvæði og æfðum okkur smá, svo fórum við á rugby æfingu um kvöldið. Á föstudeginum fórum við upp í Gruve 2 eða næstu námu við okkur og komumst varla niður úr henni vegna hálku á lausum sandsteinsblokkum niður allt fjallið, eftir það var það bara friday gathering en ég fékk þau ekki til að joina í vikulega sjó-sundið. Á Laugardaginn fórum við Minney og Tinna og 5 aðrar manneskjur til Björndalen, strákarnir svindluðu reyndar þar sem annar þeirra kom á bíl og hinn hjólandi en við gegnum alla leiðina. Í Björndalen gistum við í risa-"kofa" með engu rafmagni, wc né hita svo við þurftum að tína kol á leiðinni og bera til Björndalen og kveiktum uppí svona kola-ofni. Tinna var svo heppin að fara út að pissa og hitta þennan sæta rebbaling sem starði á hana með litlu krípí augunum sínum. Við höfðum það svo bara kósí og borðuðum pulsur með kartöflusalati við kertaljós og "fallegan söng".
Á leiðinni heim gengum við yfir Platau fjellet sem var þó nokkuð skemmtileg ganga og sáum við þar frekar fallega hreindýrahjörð hlaupa framhjá okkur.

Yndisleg helgi sem endaði með vídjókvöldi og skúffuköku í eldhúsinu mínu.

Ég elska Svalbarða.
Ástarkveðja, Anna Stella.
p.s. afsakið flýtiskriftarbloggið mitt, reyni að gera betur næst ;)
Hérna eru nokkrar myndir úr Björndalen ferðinni. það koma svo fleiri á facebook.


sunnudagur, ágúst 31, 2008

Klikkað stuð!

Síðustu þrjár vikurnar hérna hafa verið geðveikar, kolklikkaðar, svo rosalega brjálað að gera að enginn tími hefur gefist fyrir blogg.

Við fórum í 12 daga felt ferð með skólanum. Gistum 8 daga á skipinu MS Stockholm og restina í tjaldbúðum í Billefjorden. Við erum því búnar að fara víða í þessari ferð okkar og upplifa endalaus ævintýri og skemmtun. Það vantar ekki jöklana hérna á Svalbarða svo við erum komnar í feitt, sáum endalaust mikið af þeim, bæði af skipinu og á landi en gengum bara upp á einn.

Það sem við gerðum í örstuttu máli var:

Stukkum af skipinu út í hafið um 77°N – kaldasta stund lífs okkar.

Skoðuðum Pyramiden- draugabær þar sem um 1300 rússneskir námuverkamenn og fjölskyldur þeirra bjuggu þar til fyrirtækið hætti námuvinnslu og nú situr bara eftir auður bær með köttum og mávum.

Upplifðum í fyrsta skipti wc tjöld (í tjaldbúðunum).

Þurftum að standa 2 klst ísbjarnavaktir á næturnar í tjaldbúðunum.

Sáum ísbjörn, hreindýr, beluga hvali (Mjaldur er víst íslenska þýðingin ), refi, kríur, lunda og seli.

Borðuðum versta brauð í heimi á hverjum degi og ferðuðumst um á zodiokum um Billefjorden.

Eftir að við komum heim fórum við að vinna í skýrslunum úr ferðinni og þurfum við að flytja fyrirlestra úr henni líka. Vinnslan í því hefur gengið frekar hægt þar sem við búum í stóru húsi þar sem virðist vera partý annað hvort kvöld og stundum á hverju kvöldi eins og í síðustu viku.

Á mánudeginum: kökupartý með súkkulaðibitakökum og skúffuköku og kunna því allir íslenska orðið skúffukaka núna.

Á þriðjudeginum var svo fiskipartý því sjávarlíffræðingarnir gáfu okkur svo mikinn fisk, elduðum fiskisúpu og karrífiskrétt.

Á miðvikudeginum var svo rússapartý í næsta húsi sem við beiluðum á.

Fimmtudagurinn fór í „Friday gathering“ niðrí skóla- brjálað partý og sjósund á eftir. 1 stig fyrir nærföt 1,5 stig fyrir nekt. Við Minney héldum okkur bara við 1 stig en strákarnir voru ekki eins feimnir.

Á föstudeginum var partý í tveimur eldhúsum í húsinu, annað tacopartý og hitt pönnukökupartý, sóðalega gaman.

Á Laugardeginum var svo partý í Huset skipulagt af einhverju jarðfræðikrúi sem er í cruise um Svallann.

Svo það má nú segja að það sé sjúhúklega gaman hérna á Svallanum og endalaust mikið hægt að gera, þetta er ekkert svona kofadæmi eins og í þættinum Svalbarða hehe...

Við snúllurnar þrjár

Marín og Anna Stella á Nordenskiolsbreen


Marín og Minney að leika sér í sjónum


Þarna erum við að fara að leggja í hann frá tjaldbúðunum einn daginn


WC f nr 2


Anna Stella á wc f nr 1


Minney mús uppá jökulgarði Scottbreen


Marín töffari

laugardagur, ágúst 09, 2008


Þá er komið að því. Fallegustu stúlkurnar á Svalbarða eru að fara úr bænum. Á morgunn, sunnudaginn 10. ágúst munum við hendast um borð í Stockholm sem er víst hið fínasta skip að sögn Skafta (sem er hérna btw). Við munum skottast um Spitzbergen með skipinu í viku og ferðast um í zodiak frá skipi að landi í uppáhaldsgöllunum okkar. Að þeim dögum loknum mun skipið skilja okkur eftir einhverstaðar út í rassgati þar sem við munum sofa í stórum tjaldbúðum í 5 daga, borða baunir, taka nokkur snið og mér skildist á kennaranum að við ættum svo að skiptast á að halda ísbjarnavörð á kvöldin, hmmm... og kannski á næturnar. Á meðan á þessum tíma stendur mun sennilega enginn heyra neitt frá okkur enda líklega símasambandslausar og auðvitað internetlausar. En við erum reddí í fleiri ævintýri- með birgðir af súkkulaði og síðum ullarnærfötum og orðnar alveg sjúklega spenntar.





Það er annars búið að vera æðislega gaman hjá okkur stúlkukindunum. Í gær var svaðalegt fyllerí á krökkunum í skólanum í Galleríinu hérna í Nybyen þar sem 2 myndarlegir fjallagarpar sýndu myndaseríu frá ferð þeirra og þriggja annarra á gönguskíðum yfir Svalbarða. Klikkað lið. Eftir galleríið héldum við okkar fyrsta og svo sannarlega ekki eina "kitchen party" Þar tróðum við okkur öll inn í eitt eldhúsið í barrocknum okkar, svo var farið í Huset og endaði AnnaS í partýi með hinni norsku Marianne með innfæddum og aðfluttum í Longyearbyen og restin fór heim að sötra viskí í eldhúseftirpartýi. Við tókum þetta út fyrir næstu tvær vikurnar enda megum við ekki drekka meira en 1 bjór á kvöldi á meðan á ferðinni stendur.

Í gær rak okkur svo í roga-stans. Sjáiði bara sjálf... og haldið þið að hann sé ekki bara nákvæmlega eins og Svali á bragðið. Spurning um að ræða við Sysselmannen um þetta.


Ástarkveðja Anna Stella.

fimmtudagur, ágúst 07, 2008

Þá erum við nú loksins komnar til Svalbarða. Ferðin gekk ótrúlega vel og þrátt fyrir fáránlega mikinn farangur, 6 töskur, 3 snjóbretti og hjól þá sluppum við, við að borga alla yfirvigt, konunni á „deskinu“ uppá keflavíkurflugvelli féllust bara hendur og sagði bara: „ ohh mér er alveg sama!“ og var hún ansi glöð þegar við skottuðumst bara í burtu.

Við byrjuðum svo á því að fá okkur morgunnbjór og samloku uppá velli og hoppuðum svo upp í vélina til Osló þar sem við stein sváfum næstum alla leið. Á flugvellinum í Osló þurftum við að hinkra svolitla stund með bjór í annarri og pizzu í hinni og skoppuðum við svo af kæti og spenningi uppí flugvélina til Longyearbyen. Alsælar með lífið og tilveruna horfðum við á fjöllin og jöklana á Svalbarða úr um glugga vélarinnar með bjór og snakk við höndina.

Fyrstu dagarnir hérna eru búnir að vera æðislegir. Við eru í litlum bekk, aðeins 15 manns og erum við öll orðin rosa fínir vinir. Við fórum að sjálfsögðu á fyllerí á Laugardagskvöldið eftir misheppnaða tilraun á föstudagskvöldinu þar sem við enduðum með breskum líffræði Karl á stuttermabol í gönguferð um Longyearbyen með franskar og tómatsósu. Við fórum í Huset sem er skemmtistaður, bíó, hótel og veitingastaður og hugsanlega eitthvað fleira. Það er staðsett frekar nálægt okkur, á mörkum Nybyen og Longyearbyen en ég býst við því að maður myndi ekki vilja vera þarna ‚in case of Jackaloop‘ en Huset stendur mjög nálægt jökulá sem rennur í gegnum bæinn úr hinum fína jökli Longyearbreen sem við sjáum út um gluggann hjá okkur.

Fyrstu tveir skóladagarnir fóru í örryggisnámskeið þar sem við fórum að synda í sjónum í þurrbúningum, búningarnir okkar láku að sjálfsögðu og ég fékk mega kvef enda ekki með nein auka föt og maður er ansi lengi að labba heim. En frá skólanum sem staðsettur er í Longyearbyen að barrocknum okkar sem er staddur í Nybyen eru 3 km. Dagur nr 2 á öryggisnámskeiðinu fór svo í að læra á riffla og æfa sig að skjóta úr rifflunum og blysbyssu, læra á hin ýmsu samskipta tól sem maður tekur með sér í fjallaferðir og skyndihjálparnámskeið þar sem við lærðum mest um kul, ofkælingar og sárabindi.

Við búum annars í rosa sætum herbergum í stórum barrock þar sem ég held að 28 manns geta búið. Það deila svo 7 saman eldhúsi og 1-2 eru saman með baðherbergi. Okkar barrock er ysta húsið í bænum og stendur uppá smá stalli svo við myndum verða „seif“ ef það skyldi koma jackaloop sem ég efast um gerist en það er aldrei að vita.

Við erum annars enga ísbirni búnar að sjá ennþá en nokkur hreindýr og einn ref fyrir utan eldhúsgluggann okkar og að sjálfsögðu munum við reyna að taka myndir að bjössa þegar við sjáum hann loks.

Kv. AnnaS.

Komment eru vel þegin btw.